Saga Michelsen úrsmiða

Fyrirtæki Michelsen úrsmiða á rætur að rekja til konugskomu Friðriks VIII Danakonungs til Íslands árið 1907. Í föruneyti konungs var Jörgen Frank Michelsen, ungur úrsmiður frá Horsens í Danmörku og áleit hann Ísland vera fyrirtaks land til að starfa við úrsmíði. Fyrstu tvö árin vann hann hjá Jóhannesi Norðfjörð úrsmið á Sauðárkróki en stofnaði þann 1. júlí 1909 verslun og úrsmíðavinnustofu undir nafninu J. Fr. Michelsen – Úr&Skartgripir. Allt frá upphafi hefur aðalsmerki Michelsen úrsmiðanna verið vönduð vinnubrögð, framsækni og fagmennska sem hefur erfst mann fram af manni, kynslóð eftir kynslóð. Í yfir 100 ár hafa Michelsen úrsmiðirnir selt og þjónustað mörg af þekktustu úramerkjum heims.

VasaurJ. Frank var mjög handlaginn og mikill áhugamaður um marga hluti. Samhliða úrsmíðinni vann hann einnig við gullsmíðar, flutti inn og seldi sápu, kom á fót svínarækt og útgerð fyrstur manna á Sauðárkróki og var slökkviliðsstjóri bæjarins um tíma. J. Frank framleiddi vasaúr undir sínu nafni á fyrri hluta síðustu aldar en vegna innflutningshaftanna á tímum Seinni heimsstyrjaldarinnar lagðist sú framleiðsla af. J. Frank átti 12 börn með íslenskri konu sinni og hans elsti sonur, Franch, fetaði í fótspor föður síns.


Franch Michelsen (1913-2009) lærði úrsmíði á verkstæði föður síns og Iðnskólanum í Reykjavík. Hann fór til frekara náms til Kaupmannahafnar árið 1937 og útskrifaðist með einkunnina „ultra godt“, hæstu einkunn sem gefin var. Um tíma vann Franch hjá Carl Jonsén, konunglegum hirðúrsmið, þar sem hann gerði m.a. við úr Alexendrinu FranchDanadrottningar. Er Þjóðverjar hertóku Danmörku, sneri Franch heim til Íslands og árið 1943 opnaði hann Michelsen verslun í Reykjavík, en faðir hans J. Frank átti ennþá og rak verslunina á Sauðárkróki. Verslanirnar tvær sameinuðust árið 1946 þegar J. Frank flutti til Reykjavíkur. Franch var þekktur fyrir mikla fagmennsku og leiðtogahæfileika og undir hans handleiðslu nutu 12 nemar þekkingar hans á faginu sem útskrifuðust sem úrsmiðir, þ.á.m. einn sona hans, Frank Úlfar. Franch var virkur meðlimur hjá Kaupmannasamtökunum sem og hjá Úrsmíðafélagi Íslands en hann var sæmdur gullmerki félagsins fyrir störf sín í þágu þess.

Frank Ú. Michelsen (1956) lærði úrsmíði hjá föður sínum og í Iðnskólanum í Reykjavík. Árið 1978 fór Frank aðra leið en úrsmiðir höfðu gert á Íslandi er hann sótti um og komst að hjá hinum heimsþekkta WOSTEP úrsmíðaskóla í Neuchatel í Sviss, fyrstur Íslendinga. Það reyndist mikið heillaskref fyrir Frank því þar komst FrankRolex úraframleiðandinn í Genf í samband við hinn unga  
Íslending er þeir voru að leita eftir traustum umboðsaðila á Íslandi. Það var fyrsta skrefið sem síðar varð að gæfuríku viðskiptasambandi við úrarisann sem hefur varað æ síðan. Að námi loknu starfaði Frank Ú við hlið föður síns um árabil eða þangað til Franch eldri dró sig í hlé að mestu vegna veikinda árið 1992. Frank Ú hefur sótt reglulega endurmenntun hjá Rolex til að viðhalda þeim gríðarlegum kröfum sem þeir gera til úrsmiða sinna. Frank Ú. hefur unnið að framgangi úrsmíðafagsins innan Úrsmiðafélags Íslands sem ritari og síðar sem formaður þess árin 2000-2005.

Michelsen úrsmiðunum hefur verið treyst fyrir afar vönduðum úrum hvaðanæva að úr heiminum og orðspor þeirra hefur farið víða. 100 ár sýna það og sanna að Íslendingar hafa treyst Michelsen úrsmiðunum og munu geta gert það um mörg ókomin ár enda er þekkingin og reynslan enn til staðar innan fyrirtækisins því nú hefur fjórða kynslóð Michelsen úrsmiða einnig lokið úrsmíðanámi.

RobertRóbert F. Michelsen (1984) lærði úrsmíði hjá föður sínum samhliða framhaldsskólanámi. Árið 2007 hóf hann strangt tveggja ára nám hjá WOSTEP í Neuchatel í Sviss, sem er leiðandi úrsmíðaskóli um heim allan. Þar lærði Róbert allt það helsta sem þessi fíngerða og nákvæma iðn hefur uppá að bjóða. Róbert útskrifaðist á 100 ára afmæli Michelsen fyrirtækisins með hæstu einkunn í skólanum. Lokaverkefni Róberts, sem stóð yfir í marga mánuði, fólst í að hanna og endursmíða vasaúr. Sveinsstykkið hans Róberts vakti mikla athygli við útskrift hans því hönnun úrsins þótti ansi frumleg og sérstaklega flókin að smíða. Í dag, eftir að hafa lokið eins árs framhaldsnámi í Sviss, starfar Róbert sem kennari hjá einkareknum úrsmíðaskóla í Sviss. Samhliða kennslu sér Róbert einnig um framleiðslu Michelsen úranna fyrir hönd fyrirtækisins sem hafa verið seld með góðum árangri í verslun Michelsen undanfarin ár.

Árið 2009, í tilefni þess er 100 ár voru frá stofnun fyrirtækisins, var markaðsnafni Franch Michelsen ehf breytt í MICHELSEN og nýtt lógó tekið í gagnið - til marks um nýja tíma fyrirtækisins. Engar breytingar voru gerðar á rekstrarformi Franch Michelsen ehf við þessa breytingu á markaðsnafni. Fyrirtækið er rekið áfram á sömu kennitölu, sama nafni í þjóðskrá og í eigu sömu fjölskyldu en Franch Michelsen ehf er búið að vera í eigu sömu fjölskyldu alla tíð og stendur traustum fótum sem aldrei fyrr.